Rúmlega 7,3 milljónir nýrra tilfella af Covid-19 greindust á undangengnum sjö sólarhringum, samkvæmt talningu AFP-fréttastofunnar. Jafngildir það rétt rúmlega einni milljón nýrra tilfella á hverjum degi, sem er það langhæsta sem sést hefur í heimsfaraldrinum til þessa. Nam aukningin um 44% milli vikna, en fyrra met var sett í apríl, þegar um 817.000 dagleg tilfelli voru skráð.
Hinn mikli fjöldi nýrra tilfella hefur verið rakinn til Ómíkron-afbrigðisins, sem sagt er mun meira smitandi en fyrri afbrigði, en rannsóknir benda til þess að því geti fylgt vægari einkenni en fyrri afbrigðum, sér í lagi ef viðkomandi hefur verið bólusettur gegn kórónuveirunni.
Óttast er hins vegar að Ómíkron-afbrigðið geti, þrátt fyrir vægari einkenni, valdið miklum búsifjum, þar sem hinn stóraukni fjöldi smita geti leitt til þess að sjúkrahús fyllist og ekki verði hægt að sinna öllum sem þurfi aðstoð.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO, varaði þannig við því í fyrrinótt að Ómíkron-afbrigðið væri eins og flóðbylgja sem hótaði því að kaffæra heilbrigðiskerfi heimsins. „Þetta setur og mun áfram setja mikinn þrýsting á örþreytt heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðiskerfi sem ramba á barmi hruns,“ sagði Ghebreyesus.
Aukningin var einna mest í Evrópu, þar sem rúmlega fjórar milljónir tilfella greindust á síðustu sjö dögum, og í Norður-Ameríku, þar sem tæplega 2,5 milljónir tilfella greindust. Hins vegar hefur dregið úr dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar, og voru skrásett dauðsföll nú um 6.400 á dag. Hafa nú rúmlega 5,4 milljónir látist samkvæmt opinberum tölum af völdum kórónuveirunnar frá því að heimsfaraldurinn hófst.
Aukningin hefur leitt til þess að mörg af ríkjum heims hafa nú sett samkomutakmarkanir eða gripið til annarra sóttvarnaaðgerða til að koma í veg fyrir hópsmit þegar fólk kemur saman til að fagna nýju ári.
Í Parísarborg verður öllum sem eldri eru en 11 ára skylt að ganga um með grímu utandyra frá og með deginum í dag, og öllum næturklúbbum borgarinnar hefur verið lokað fram í janúar.
Á Spáni hefur flestum opinberum hátíðahöldum verið frestað, nema í höfuðborginni Madríd, þar sem 7.000 manns munu fá að koma saman, en nýársfögnuður borgarinnar dró að sér um 18.000 manns árið 2019, fyrir heimsfaraldurinn.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.