Dánaraðstoð lögleidd í Austurríki

Dánaraðstoð er lögleg frá og með deginum í dag í …
Dánaraðstoð er lögleg frá og með deginum í dag í Austurríki. AFP

Ný lög tóku gildi í Austurríki í dag sem heimila svokallaða dánaraðstoð. Allir sem hafa náð átján ára aldri sem eru langveikir eða kljást við langvarandi og lífsgæðaskerðandi sjúkdóma geta nú ákveðið að fá aðstoð við að fara yfir móðuna miklu.

Austurríska þingið samþykkti lögin í síðasta mánuði í kjölfar þess að dómstólar komust að niðurstöðu um að dánaraðstoð færi ekki í bága við stjórnarskrá landsins.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að stíft regluverk og eftirlit verði með dánaraðstoðinni þar sem hvert tilvik verði metið af tveimur læknum, þar af einum sérfræðimenntuðum í gjöf og meðhöndlun líknarlyfja.

Yfirvöld í Austurríki hafa þá sagt að auknum fjármunum verði varið í uppbyggingu líknandi meðferða til þess að tryggja að enginn neyðist til þess að láta lífið séu aðrir möguleikar fyrir hendi.

Austurríkismenn fylgja fordæmi nágrannaríkisins Sviss, en þar hefur dánaraðstoð verið lögleg um árabil. Þá hafa lönd á borð við Spán, Belgíu og Þýskaland stigið skref í átt að lögleiðingu dánaraðstoðar.

Umhugsunarfrestur í tólf vikur

Dánaraðstoðin er eins og áður segir einungis leyfð fyrir fullorðna, það er þá sem náð hafa átján ára aldri, og þá geta þeir sem kljást við andleg veikindi ekki fengið dánaraðstoð.

Þeir sem kjósa að fara þessa leið verða þá að sýna fram á með vottorði lækna að þeir búi við aðstæður sem uppfylla þær kröfur sem nefndar eru hér að ofan. Einnig verða þeir að geta staðfest að þeir séu til þess bærir að taka eigin ákvarðanir.

Í kjölfar þess að tveir læknar samþykkja ákvörðunina verða að líða tólf vikur í eins konar umhugsunarfrest, hann er þó ekki nema tvær vikur ef um er að ræða banvænan sjúkdóm.

Að umhugsunartímanum og ferlinu loknu, kjósi einstaklingar enn að láta verða af dánaraðstoðarmeðferðinni, fá viðkomandi aðilar lyfseðil fyrir banvænum lyfjum sem þeir svo fá afhent í apótekum. Því verður haldið leyndu og aðeins lögfræðingar fá að vita hvaða apótek geyma og afhenda slík lyf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert