Einnota plastumbúðir bannaðar í Frakklandi

Plastpokarúllan á myndinni heyrir nú sögunni til í Frakklandi, sem …
Plastpokarúllan á myndinni heyrir nú sögunni til í Frakklandi, sem og reyndar aðrar einnota plastumbúðir sem notaðar eru fyrir ávexti og grænmeti. AFP

Ekki er lengur löglegt í Frakklandi að pakka ávöxtum og grænmeti inn í plastumbúðir en bann við slíkum umbúðum tók gildi þar ytra í dag. Framleiðendur geta því ekki lengur pakkað gúrkum, sítrónum, appelsínum og 27 öðrum ávaxta- og grænmetistegundum í plast. Þó eru stórar pakkningar og niðurskornir ávextir og unnar ávaxta- og grænmetismatvörur undanþegnar banninu.

Emanual Macron Frakklandsforseti segir bannið byltingu og það sé skýr birtingarmynd þess að Frakkar hyggist uppfylla markmið sitt um að útrýma einnota plastumbúðum fyrir árið 2040. BBC greinir frá málinu.

Rúmlega þriðjungur seldra ávaxta og grænmetis er talinn seldur í einnota plastumbúðum og telja yfirvöld þar í landi að komið sé í veg fyrir notkun á um milljarði einstakra einnota plastumbúða með banninu.

Hluti af stærra plani

Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu segir að Frakkar noti „yfirgengilegt magn“ af einnota plastumbúðum og bannið miði að því að skipta út slíkum umbúðum og hvetja til notkunar á endurvinnanlegum umbúðum.

Plastbannið er hluti af margra ára áætlun sem ríkisstjórn Macrons kom á laggirnar og miðar að því að hægt og bítandi útrýma notkun plasts. Í fyrra voru til að mynda plasthnífapör, plastbollar og plaströr bönnuð í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert