Óska eftir frekari frestun 5G-innleiðingar

Airbus A320neo flugvél.
Airbus A320neo flugvél. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa óskað eftir að fjarskiptafyrirtækin AT&T og Verizone fresti enn frekar að hefja innleiðingu á 5G-netkerfi sínu, sem þegar hefur verið frestað um tvær vikur. 

Farið er fram á frestunina vegna óvissu um hvort netkerfið trufli mögulega nauðsynlegan öryggisbúnað fyrir flugsamgöngur.

Upphaflega var stefnt að því að hefja innleiðingu kerfisins 5. desember. Flugrisarnir Airbu og Boeing hafa báðir lýst yfir áhyggjum af mögulegum áhrifum netkerfisins á tækni um borð í sínum flugvélum sem skynjar fjarlægð frá jörðu, það er flughæð. 

Samgönguráðherra Bandaríkjanna, Pete Buttigieg, ásamt forstjóra flugsamgöngustofu, Steve Dickson, óskaði eftir frekari frestun í skriflegu bréfi til forstjóra AT&T og Verzone, stærstu fjarskiptafyrirtækja Bandaríkjanna.

Fyrirtækin hafa ekki enn brugðist við beiðnum fjölmiðla um svör eða viðbrögð við ósk yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert