Bandaríkjamenn ættu frekar að líta til fjölda innlagna á sjúkrahús og dauðsfalla af völdum kórónuveirunnar en fjölgunar smita að sögn Antonys Faucis, sóttvarnalæknis Bandaríkjanna.
Að meðaltali 370 þúsund smit greinast nú á viku í Bandaríkjunum og hefur fjölgað um 200% á síðustu tveimur vikum. Innlögnum á sjúkrahús hefur aftur á móti aðeins fjölgað um 30% og dauðsföllum hefur fækkað um 4%.
Fauci sagði við fjölmiðla vestanhafs í dag að margar nýjar sýkingar, sérstaklega meðal bólusettra einstaklinga, væru einkennalausar. Fjöldi nýrra smita skipti því minna máli þegar Ómíkron-afbrigðið væri annars vegar en þegar önnur afbrigði veirunnar voru meira áberandi. Fjöldi nýrra smita væri ekki lengur góð mælistika fyrir áhrif veirunnar á samfélagið.
„Stóra spurningin er hvort við séum að fá vernd frá alvarlegum veikindum og sjúkrahúsinnlögnum frá bólusetningum,“ segir Fauci.