Mikilvæg vika er að hefjast hjá Andrési Bretaprinsi í baráttunni gegn einkaréttarmáli sem hann stendur frammi fyrir fyrir kynferðisbrot.
Á vef The Guardian er greint frá því að á morgun verði gerð opinber trúnaðargögn sem innihalda samkomulag á milli brotaþolans Virginiu Giuffre og kynferðisafbrotamannsins Jeffreys Epsteins, sem var góðvinur Andrésar.
Lögfræðingar Andrésar neita ásökunum Giuffre um að hann hafi brotið kynferðislega gegn henni þegar hún var 17 ára árið 2001. Þá telja þeir að gögnin sem verða opinberuð á morgun muni sanna sakleysi prinsins.
Á morgun munu lögfræðingar Andrésar reyna að sannfæra dómara í málinu um að samkomulagið á milli Giuffre og Epsteins þýði að ekki sé hægt að höfða mál gegn Andrési.
Lögfræðingar Giuffre hafa hins vegar vísað tilraunum til að stöðva einkaréttarmálið á bug og segja þær vera „röð þreyttra tilrauna Andrésar prins til þess að víkja sér undan og forðast málið“.