Bolsonaro fluttur á spítala vegna þarmastíflu

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Jair Bol­son­aro, forseti Brasilíu, var í dag fluttur á spítala eftir mikla kviðverki og er talið að hann þjáist af þarmastíflu.

Forsetinn, sem er 66 ára gamall, var staddur í fríi í Santa Catarina-héraðinu í suðurhluta landsins þegar verkirnir fóru að segja til sín. Var hann því rakleiðis fluttur til Sao Paulo á einkaflugvél forsetaembættisins.

Honum var komið á Vila Nova Star-spítalann, þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun, segir í tilkynningu frá embættinu. Er líðan hans í lagi sem stendur.

Stunginn í forsetabaráttunni

Bolsonaro er umdeildur stjórnmálamaður bæði innan Brasilíu sem og alþjóðasamfélagsins. Hann var á liðnu ári sakaður um glæpi gegn mannkyninu fyrir Alþjóðaglæpadómstólnum fyrir meint hlutverk sitt í eyðingu Amazon-skógarins.

Þar að auki hefur hann sætt mikilli gagnrýni fyrir hvernig hann hefur tekist á við heimsfaraldur kórónuveirunnar en landið situr nú í þriðja sæti yfir flest dauðsföll sökum veirunnar.

Bolsonaro hefur glímt við heilsufarsvandamál eftir að hann var stunginn í kviðinn í kosningabaráttu sinni árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert