Epstein greiddi hálfa milljón fyrir þögn

Fram kemur í gögnunum að þögn Giuffre hafi verið keypt …
Fram kemur í gögnunum að þögn Giuffre hafi verið keypt og byggja lögmenn Andrésar Bretaprinsar á samkomulaginu. Ljósmynd/Lögregluyfirvöld í Flórída

Jeffrey Epstein greiddi Virginiu Giuffre hálfa milljón Bandaríkjadala árið 2009, sem myndi jafngilda um 65 milljónum íslenskra króna, gegn því að hún myndi ekki tilkynna til lögreglu neinn tengdan Epstein til lögreglu vegna mansals eða kynferðisbrota.

Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum í einkaréttarmáli sem Giuffre hefur höfðað gegn Andrési Bretaprinsi fyrir kynferðisbrot sem hann á að hafa framið gegn henni fyrir tuttugu árum síðan en Andrés hefur ávallt neitað sök í málinu.

Gögnin koma fram í kjölfar yfirheyrslu í málinu sem fram fór í dag. 

Andrés Bretaprins.
Andrés Bretaprins. AFP

Segja greiðslurnar koma í veg fyrir að hægt sé að kæra prinsinn

Verjendur Andrésar vilja byggja á því að „sáttargreiðslurnar“ frá árinu 2009 komi í veg fyrir að Giuffre geti leitt Andrés fyrir dóm, enda hafi hún þegar samþykkt að leita ekki réttar síns gegn nokkrum mögulegum brotamanni sem tengist mansalsmáli Epsteins. 

Lögmenn Giuffre halda því hins vegar fram að samkomulagið eigi ekki við í máli hennar þar sem hún var leidd í mansal ung að aldri. Málið snýst um meint kynferðisofbeldi af hálfu Andrésar sem á að hafa átt sér stað í New York, London og á einkaeyjum auðjöfursins Epsteins. 

Epstein lést í fangaklefa árið 2019 á meðan mál hans beið meðferðar en samverkakona hans Ghislane Maxwell hefur þegar verið sakfelld fyrir sinn hlut í málinu.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert