Innrás Rússa í Úkraínu „mjög líkleg“

Úkraínskir hermenn á heræfingu á jóladag.
Úkraínskir hermenn á heræfingu á jóladag. AFP

Her Rússlands er „mjög líklegur“ til að ráðast inn í Úkraínu. Aðeins er hugsanlegt að afstýra því með „risavöxnum þvingunum“.

Þetta sagði Adam Schiff, þingmaður demókrata og formaður nefndar bandaríska þingsins sem lýtur að njósna- og leyniþjónustumálum. Féllu ummælin í viðtali á sjónvarpsstöðinni CBS í gærkvöldi.

Schiff sagði einnig að innrás gæti komið í bakið á stjórnvöldum í Kreml, með því að hrekja fleiri lönd í faðm Atlantshafsbandalagsins.

Adam Schiff á blaðamannafundi í síðasta mánuði.
Adam Schiff á blaðamannafundi í síðasta mánuði. AFP

Bandaríkin muni svara á afgerandi hátt

„Ég held líka að það sé sterkur fælingarmáttur í því að ef þeir gera innrás, þá mun það færa NATO nær Rússlandi, en ekki ýta því lengra í burtu,“ sagði Schiff.

Í kjölfar viðtalsins gaf Hvíta húsið út yfirlýsingu þar sem fram kom að forsetinn Joe Biden hefði rætt við forseta Úkraínu, Volodimír Selenskí.

„Biden forseti kom því á hreint að Bandaríkin og bandamenn þeirra munu svara á afgerandi hátt, ef Rússland ræðst frekar inn í Úkraínu.“

Á Twitter sagði Selenskí að fyrstu alþjóðlegu viðræður ársins, á milli hans og Bandaríkjaforseta, sýndu fram á það hversu sérstakt samband þeirra væri.

Pútín, Selenskí og Biden.
Pútín, Selenskí og Biden. AFP

Viðræður í Genf

Um hundrað þúsund rússneskir hermenn hafa safnast saman nærri landamærum Úkraínu og Rússlands, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.

Fyrr í vikunni tjáði Biden Vladimír Pútín Rússlandsforseta að Bandaríkin myndu grípa til alvarlegra þvingana, komi til árásar Rússa.

Viðræður hafa verið settar á dagskrá í Genf dagana 9. og 10. janúar.

Stjórnvöld í Kreml hafa lengi kvartað undan því að NATO sæki að þeim í krafti fjölgunar aðildarríkja í álfunni. Úkraína er ekki á meðal þeirra, en NATO hefur stækkað í austurátt frá falli járntjaldsins og í Kænugarði er sóst eftir aðild að bandalaginu.

Átta ár eru frá því Rússar réðust inn í Úkraínu og innlimuðu Krímskagann, árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert