Öflugur jarðskjálfti sem mælst hefur sex að stærð reið yfir austurhluta Taívan í dag. Jörð skalf í ríflega 20 sekúndur og urðu íbúar í höfuðborginni Taipei hans vel varir.
Skjálftinn mældist á 19 kílómetra dýpi og voru upptök hans um 56 kílómetra austur af borginni Hualien.
Vegfarendur urðu vitni að því að byggingar svignuðu þegar skjálftinn reið yfir rétt fyrir klukkan sex að staðartíma. Engar tilkynningar um skemmdir hafa þó enn borist veðurstofunni þar í landi.
Jarðskjálftar eru nokkuð algengir í Taívan þar sem eyjan er staðsett nærri flekaskilum. Skjálftar af þessari stærðargráðu geta reynst lífshættulegir, en upptök skjálftans skipta sköpum.