Þinghúsið í Höfðaborg í Suður-Afríku stendur aftur í ljósum logum, nokkrum klukkustundum eftir að slökkvistarfi lauk þar. BBC greinir frá.
Aðeins 12 slökkviliðsmenn voru á svæðinu þegar vindur blés um viðargólf byggingarinnar og eldurinn blossaði upp á ný.
Eldurinn braust út snemma í gær í elsta hluta þinghússins og börðust tugir slökkviliðsmanna við eldsins en 49 ára karlmaður er grunaður um íkveikju.
Yfirvöld höfðu áður varað við því að eldurinn tæki sig upp að nýju þar sem þingsalurinn er teppalagður og gólfin úr við. Moloto Mathapo, talsmaður þingsins, sagði við suðurafríska miðla að slökkviliðsmenn hafi verið á svæðinu fram eftir nóttu að slökkva í glóðum á svæðinu.
Borgarráð Höfðaborgar hefur lýst því yfir að fjórða og fimmta hæð þinghússins séu algjörlega eyðilagðar og óljóst sé hvenær slökkvistarfi ljúki. Þingsalurinn fór illa út úr eldsvoðanum og verður ekki nothæfur næstu mánuðina.