Dæmd í fangelsi fyrir að minnast fjöldamorðs

Chow Hang-tung hefur verið dæmd í fangelsi fyrir að skipuleggja …
Chow Hang-tung hefur verið dæmd í fangelsi fyrir að skipuleggja vökur til minningar um fórnarlömb fjöldamorðsins á Tiananmen-torgi. AFP

Lýðræðissinnaður aðgerðasinni í Hong Kong hefur verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir að skipuleggja vöku til að minnast fórnarlamba fjöldamorðsins á Tiananmen-torginu í Peking, eða Torgi hins himneska friðar, árið 1989.

BBC greinir frá.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Chow Hang Tung lendir í vandræðum fyrir slíkt athæfi en hún skipulagði vökur árin 2020 og 2021. Var hún dæmd í 12 mánaða fangelsi fyrir að eiga frumkvæði að og taka þátt í vökunni árið 2020.

Þann 4. júní 1989 voru hundruð lýðræðissinnaðra mótmælenda myrt af kínverskum yfirvöldum á Tiananmen-torginu. Fjöldamorðin eru afar eldfimt umræðuefni í kínversku samfélagi og hafa yfirvöld reynt að koma í veg fyrir að þeirra sé minnst. Hafa vökur jafnframt verið bannaðar síðastliðin tvö ár á grundvelli samkomutakmarkana.

Taldi sig ekki hvetja fólk til að safnast saman

Chow gegndi áður varaformannsembætti í Hong Kong-bandalagi, sem nú er búið að leysa upp, sem skipulagði árlega vökur til minningar um fórnarlömb fjöldamorðsins á torginu.

Á síðasta ári birti Chow tvær greinar þar sem hún hvatti íbúa til að minnast fórnarlambanna með því að kveikja á kertum þann 4. júní.

Var Chow í dag sakfelld fyrir að hvetja fólk til að brjóta gegn vökubanninu.

Chow bar fyrir sig að hún hefði ekki verið að hvetja fólk til þess að safnast saman heldur einfaldlega minnast fórnarlambanna.

Dómarinn féllst ekki á rök hennar og taldi þau ótrúverðug. Taldi hún akademískan feril Chow gera það að verkum að hún hefði vel geta orðað greinar sínar með skýrari hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert