Krísa á sjúkrahúsum en ekki vegna veikinda

Fyrir utan St Thomas-sjúkrahúsið í Lundúnum í desember.
Fyrir utan St Thomas-sjúkrahúsið í Lundúnum í desember. AFP

Varað hefur verið við því í Bretlandi í dag að í uppsiglingu sé mikil krísa á spítölum landsins, sökum manneklu af völdum hraðrar útbreiðslu Ómíkron-afbrigðisins. 

Manneklan stafar þó ekki af miklum veikindum sjúklinga, enda hafa innlagnir ekki náð nærri því þeim miklu hæðum sem sáust þegar fyrri öldur faraldursins gengu yfir.

Bitnar á samgöngum og sorphirðu

Fjöldi þess fólks sem þarfnast öndunarvélar hefur að sama skapi staðið óhaggaður, þrátt fyrir að metfjöldi smita hafi greinst á næstum hverjum degi á milli jóla og nýárs.

Í stað fjölda innlagna glímir heilbrigðiskerfið við það hversu margir úr röðum starfsfólksins þurfa að einangra sig heima eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit, að því er AFP-fréttastofan greinir frá.

Fjarvistir starfandi fólks hafa einnig bitnað á samgöngum í landinu og hafa margir þurft að bíða þess lengi að komast í og úr vinnu. Sorphirðuþjónusta hefur þá sömuleiðis setið á hakanum víða.

Góðar fréttir

Maggie Throup, ráðherra bólusetninga og lýðheilsu, sagði í samtali við fréttastofu Sky News í dag að óljóst væri hversu margir Bretar væru nú í einangrun eftir að smitum fjölgaði svo mjög yfir jólin.

„En góðu fréttirnar eru þær að þetta virðist ekki hafa í för með sér alvarlega sjúkdóma eins og sum önnur afbrigðanna gerðu,“ sagði ráðherrann.

Um fimmtíu þúsund starfsmenn heilbrigðiskerfis landsins, NHS, voru fjarri vinnu í síðustu viku sökum veikinda eða einangrunar, samkvæmt umfjöllun dagblaðsins Sunday Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert