Metfjöldi smita greindist í Bretlandi gær, að því er stjórnvöld þar í landi greindu frá nú síðdegis.
Var tvö hundruð þúsund smita múrinn brotinn og gott betur en það, en alls greindust 218.724 kórónuveirusmit. Á sama tíma létust 48 manns sem greinst höfðu með veiruna.
Innlagnir hafa þó ekki náð nærri því þeim miklu hæðum sem sáust þegar fyrri öldur faraldursins gengu yfir.
Fjöldi þess fólks sem þarfnast öndunarvélar hefur að sama skapi staðið óhaggaður, þrátt fyrir að metfjöldi smita hafi greinst á næstum hverjum degi á milli jóla og nýárs.
Í stað fjölda innlagna glímir heilbrigðiskerfið við það hversu margir úr röðum starfsfólksins þurfa að einangra sig heima eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit, eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag.