Ætlar að gera óbólusettum lífið leitt

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vakti hörð viðbrögð frá andstæðingum sínum og sömuleiðis usla á þinginu eftir að hann varaði þá sem ekki hafa verið bólusettir við kórónuveirunni í landinu við og sagðist ætla að gera þeim lífið leitt og hindra aðgang þeirra að ýmsum hliðum daglegs lífs.

„Hvað varðar þá óbólusettu þá langar mig að gera þeim lífið leitt,“ sagði Macron í viðtali við dagblaðið Le Parisien.

Stjórnarandstæðingar gagnrýndu orðfæri hans í viðtalinu og sögðu það ekki hæfa forseta. Notaði hann meðal annars franska orðið „emmerder“, sem er telst vera ljótt slanguryrði og er dregið af orðinu „merde“ sem þýðir „skítur“.

„Og við munum halda áfram að gera þetta, allt til loka. Það er okkar aðferðafræði,“ sagði Macron.

Fjaðrafokið vegna ummæla forsetans leiddi til þess að ekki tókst að samþykkja nýja löggjöf um hertar takmarkanir vegna Covid-19.

Lögin sem ríkisstjórn Macron vill koma í gegnum þingið er að bólusetning verði skylda fyrir þá sem vilja fara á menningarviðburði, ferðast í lestum innanlands eða heimsækja kaffihús frá og með 15. janúar.

Ekki verður lengur hægt að sýna fram á nýlegt veirupróf eða að hafa jafnað sig á kórónuveirunni til að vera gjaldgengur fyrir veirupassa í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka