Joe Biden Bandaríkjaforseti mun leggja ábyrgðina á innrásinni í þinghús Bandaríkjanna á herðar Donald Trump fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Eitt ár verður liðið frá því að árásin átti sér stað á morgun.
Samkvæmt fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, Jen Psaki, mun Biden fordæma gjörðir forvera síns og segja hann einan bera ábyrgð á þeim „glundroða“ sem varð fyrir utan þinghúsið í Washington D.C. þegar þingið var við það að samþykkja kjör Joe Bidens sem forseta Bandaríkjanna.
Psaki segir Biden sjá innrásina sem „sorglegan hápunkt“ þess sem hefði gengið á í landinu undir stjórn Donald Trump.
Um 450 hafa verið ákærðir í kjölfar innrásarinnar og þar á meðal 6 lögreglumenn. Einhverjir hafa þegar verið dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir hlutdeild í athæfinu.
Ræðu Biden verður sjónvarpað á morgun en Donald Trump hefur aflýst sínum eigin blaðamannafundi sem átti líka að fara fram á morgun.