Meira en einn af hverjum 20 íbúum Bretlands var með Covid-19 síðustu viku ársins 2021, en um er að ræða hæsta hlutfall frá því faraldurinn hófst. Um 3,7 milljónir Breta voru smitaðar af veirunni þá viku, en um 2,3 milljónir voru smitaðar vikuna þar á undan svo aukningin var gríðarleg. AFP-fréttastofan greinir frá en vitnað er í opinberar tölur Hagstofu Bretlands.
Smitum hefur fjölgað í öllum aldurshópum en smithlutfallið er hæst meðal skólabarna og ungra fullorðinna.
Smithlutfallið var enn hærra í London en talið er að um tíundi hver íbúi borgarinnar hafi verið smitaður síðustu viku ársins. Annars staðar á Englandi var hlutfallið um einn af hverjum fimmtán. Staðan í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi var örlítið skárri.
Bretland er það land í Evrópu sem hefur orðið hefur hvað verst úti vegna faraldursins, en um 150 þúsund einstaklingar hafa látist og um 200 þúsund smit hafa verið að greinast á hverjum degi síðustu daga.
Þrátt fyrir það hefur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ekki viljað herða sóttvarnaaðgerðir. Hann telur að spítalainnlangir og fjöldi alvarlegra veika kalli ekki á hertar aðgerðir að svo stöddu.
Í staðinn hefur verið einblínt á örvunarbólusetningu en um 60 prósent íbúa Bretlands eldri en 12 ára hafa fengið þriðja skammtinn af bóluefni.