Flúrgoðar fyrtast við blekreglur

Húðflúriðnaður Evrópu á undir högg að sækja að sögn fjölda …
Húðflúriðnaður Evrópu á undir högg að sækja að sögn fjölda listamanna, sem rætt hafa við fjölmiðla upp á síðkastið, eftir að nýjar reglur Evrópusambandsins tóku gildi í gær, 4. janúar, og banna 4.000 efni sem meðal annars er að finna í húðflúrbleki. AFP

Húðflúrlistafólk um gervalla Evrópu virðist nokkurn veginn á einu máli um að nýjar reglur Evrópusambandsins, sem tóku gildi í gær og banna 4.000 mismunandi efni í því húðflúrbleki er verið hefur í notkun síðustu 30 ár, séu atvinnugreininni þungt högg og muni færa flúrstarfsemina úr leyfisskyldu umhverfi undir eftirliti heilbrigðisyfirvalda inn í afkima leyfislausra flúrara á heimilum og í huldum véum.

Nýju reglurnar banna í stuttu máli alla liti í því bleki, sem nú er til notkunar, utan svart og hvítt og bera reglumeistarar Evrópusambandsins við krabbameins- og ofnæmishættu auk erfðafræðilegra stökkbreytinga (e. genetic mutations).

Húðflúriðnaður í Evrópu er mikill vexti, áætlað er að um tólf prósent íbúa álfunnar beri húðflúr, þýsk stjórnvöld telja fimmta hvern íbúa landsins vera flúraðan og í Belgíu einni líta 500.000 ný húðflúr dagsins ljós ár hvert. Vita flúrlistamenn nú ekki sitt rjúkandi ráð um hvar þeir geti nálgast litablek í stað þess sem komið er á bannlista, en Evrópusambandið hefur þó gefið gálgafrest á tvo algenga liti, grænan og bláan, á meðan nýrra lausna er leitað. Fáir kannast þó við að vita hvaða lausnir það verða.

Munu leita til leikmanna

„Viðskiptavinirnir munu ekkert hætta að láta flúra sig með litum þótt þeir verði ekki í boði hjá húðflúrstofum með tilskilin starfsleyfi,“ segir Kari C. Kjelskau, formaður Landssambands norskra húðflúrlistamanna, Norsk Tattoo Union, í samtali við mbl.is, „þeir munu leita til leikmanna sem vinna heima hjá sér með tilheyrandi áhættu, þar sem enginn veit hvað litirnir sem leikmennirnir kaupa innihalda.

Kari C. Kjelskau, formaður norska flúrsambandsins, kveður nýju reglurnar fyrst …
Kari C. Kjelskau, formaður norska flúrsambandsins, kveður nýju reglurnar fyrst og fremst ógn við öryggi og heilbrigði neytenda. Ljósmynd/Aðsend


Hættan á sýkingum og hvers kyns blóðsmiti eykst svo nýju reglurnar hafa mun meiri áhættu í för með sér en áður var, þótt ætlunin sé á hinn veginn,“ heldur Kjelskau áfram en hún starfar við sjötta mann á húðflúr- og götunarstofunni Memento Tattoo í Ósló.

Hún kveður norska húðflúrsambandið styðja þann tilgang reglugerðarinnar heilshugar að búnaður til húðflúrunar skuli vera heilsufarslega öruggur gagnvart neytendum, nú sé staðan hins vegar sú að illmögulegt sé að nálgast blek sem brjóti ekki gegn nýju reglunum. „Framleiðendurnir segja okkur að von sé á nýjum litum nú í byrjun árs, en hve gott framboðið verður af þeim vitum við ekkert um. Og nú munu allar húðflúrstofur í Evrópu vilja kaupa nýju litina samtímis,“ segir formaðurinn.

Beiðnum um fresti þverneitað

Hún kveður alla atvinnugreinina setta í skelfilega stöðu sem að öllum líkindum muni verða mjög dýrkeypt. Húðflúrlistafólk tapi viðskiptavinum sínum, sitji uppi með lager af forboðnu bleki og til að bæta gráu ofan á svart hafi blekframleiðendur auðvitað séð sér leik á borði til að maka krókinn og hækkað verðið á blekinu um hundrað prósent.

„Norska húðflúrsambandið hefur ítrekað beðið heilbrigðisyfirvöld um fresti, undanþágur og leyfi til að fá að nota það sem fólk situr uppi með af gamla blekinu en þessu hefur Umhverfisstofnun þverneitað,“ segir Kjelskau og boðar síst betri tíð með blóm í haga, þvert á móti.

Húðflúrlistamaður vinnur eljuverk sitt er útheimtir hvort tveggja tíma og …
Húðflúrlistamaður vinnur eljuverk sitt er útheimtir hvort tveggja tíma og ríkulegan skammt af þolinmæði af hálfu listamanns sem þiggjanda. Fátt skyggir þó á gleðina yfir góðri útkomu rétt eins og fátt er svo ömurlegt sem mislukkað flúr. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Svo versnar ástandið enn á ný 2023, þá mun bannið einnig ná yfir grænt og blátt og þá verða 64 prósent allra lita á markaðnum ólögleg. Landssambandið metur þessa orrustu tapaða hér í Noregi svo við höfum leitað á náðir hagsmunasamtakanna The Council of European Tattoo Associations, CETA. Þau hafa kvatt lögfræðinga sér til aðstoðar og sent Evrópusambandinu erindi þar sem regluverkinu er mótmælt,“ segir Kjelskau að lokum við mbl.is.

6,6 prósent lýstu ofnæmislíkum einkennum

Sebastian Makowski er húðflúrari í Hamborg í Þýskalandi sem þarlenda fréttastofan DPA ræðir við. „Kórónuveiran og margra mánaða lokanir komu nógu illa við okkur. Svo bætist þetta við,“ segir Makowski sem líkir nýju reglunum við að verið sé að banna atvinnugrein hans að hluta.

Starfsbróðir hans í Belgíu, Filippo Di Caprio, tekur í sama streng í samtali við belgíska ríkisútvarpið RTBF og kveður forsendur bannsins enn fremur vafasamar. „Ég verð ekki var við nein alvarleg ofnæmistilfelli í kjölfar húðflúrs,“ segir hann, en þýska dagblaðið Die Zeit vitnar í húðsérfræðinginn Wolfgang Bäumler sem rannsakaði líðan 3.400 húðflúrþiggjenda árið 2010 með spurningalista sem leiddi í ljós að 67,5 prósent fundu fyrir óþægindum í húð strax eftir húðflúr, en aðeins 6,6 prósent lýstu einhvers konar ofnæmislíkum áhrifum. Níu prósent fundu enn fyrir einhverjum óþægindum fjórum vikum eftir flúr.

Íslenskur húðflúrlistamaður, sem mbl.is setti sig í samband við, baðst undan viðtali en kvað um „snúið mál með mörgum öngum“ að ræða og á ónefndri húðflúrstofu í Reykjavík fengust þær upplýsingar að þar misstu flúrmeistarar svo sem engan svefn yfir nýjum reglum, blek seldist reyndar ört upp þar sem nýjar og leyfilegar tegundir væru ekki komnar á markaðinn en blekframleiðendur ynnu nótt og dag að framleiðslu nýs bleks sem stæðist Evrópureglurnar umdeildu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert