Kennari í New York hefur verið handtekinn fyrir að hafa bólusett 17 ára dreng á heimili sínu, án þess að hafa til þess leyfi. Þá hefur kennarinn enga formlega þjálfun fengið í bólusetningum. BBC greinir frá.
Haft er eftir lögreglu að kennarinn, Laura Russo, sem kennir líffræði, hafi bólusett drenginn á heimili sínu en hann óskaði sjálfur eftir því. Hún hefur hins vegar ekki leyfi til bólusetninga og foreldrar drengsins höfðu ekki gefið leyfi fyrir því að hann yrði bólusettur.
Ekki er vitað hvernig Russo komst yfir bóluefnið eða hverrar tegundar það er, en í Bandaríkjunum hefur aðeins fengist leyfi fyrir notkun bóluefnis Pfizer fyrir börn og unglinga undir 18 ára aldri.
Í myndbandi af bólusetningunni heyrist Russo segja við drenginn: „Það verður í góðu lagi með þig, vona ég.“ En drengurinn segir: „Hér sjáið þið heimabólusetningu, gjörið svo vel.“
Russo gæti átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsisdóm fyrir athæfið. Þá hefur hún verið færð til í starfi og sinnir ekki lengur kennslu í skólastofu.