Ítalska ríkisstjórnin tilkynnti í dag að öllum eldri en fimmtíu ára verði gert skylt að þiggja bólusetningu til að draga úr ört vaxandi fjölda smita í landinu.
Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, segir ráðstöfunina eiga að hægja á fjölgun smita og hvetja Ítali sem hafi ekki þegið bólusetningu nú þegar til þess að þiggja hana.
Ítalskir vinnuveitendur hafa frá því í október þurft að krefja starfsmenn sína um „græna passann“ sem er vottun um að einstaklingurinn sé bólusettur, með nýlegt neikvætt próf eða vottorð um eldri sýkingu.
Draghi greindi frá þessari nýju ráðstöfun á fundi í dag.
Austurríki var fyrsta ríkið til þess að skylda borgara sína í bólusetningu en Evrópusambandið hefur haft tillögu þess efnis til umræðu frá því í desember.