Metfjöldi smita í Ísrael

Metfjöldi smita greindist í Ísrael í gær. Forsætisráðherrann hvetur fólk …
Metfjöldi smita greindist í Ísrael í gær. Forsætisráðherrann hvetur fólk til að láta bólusetja sig. AFP

Metfjöldi smita greindist í Ísrael í gær þegar 11.978 einstaklingar fengu jákvæða niðurstöðu úr Covid-sýnatöku. Slíkur fjöldi hefur ekki greinst á einum degi frá því að kórónuveiran fór að gera vart við sig í landinu en fyrra met stóð í 11.344 smitum og greindist sá fjöldi 2. september á síðasta ári.

Hátt í 60 þúsund manns eru nú með virkt smit í Ísrael, þar af eru um 125 sem eru alvarlega veikir, samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda í landinu.

4,3 milljónir Ísraela hafa nú fengið þriðja skammtinn af bóluefni, sem er tæplega helmingur þjóðarinnar.

Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, spáði í gær að smittíðni í landinu færi hækkandi á næstu dögum og hvatti sem flesta til að láta bólusetja sig.

„Bylgjan er á uppleið og við búumst við tugum þúsunda smita á næstu nokkrum dögum,“ sagði Bennett og bætti við: „Góðu fréttirnar eru þær að bóluefnið virkar, svo þeir sem láta bólusetja sig og nota grímu munu líklega ekki verða alvarlega veikir, og þetta mun líða hjá á nokkrum dögum.“

Frá upphafi hafa um 1,4 milljónir Covid-tilfella greinst í Ísrael og 8.247 hafa látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert