Ný lög sem banna barnahjónabönd tóku gildi í Filippseyjum í dag. Fram að þessu hefur sjötta hver stúlka í landinu gengið í hjónaband fyrir 18 ára aldur.
Filippseyjar í Suðaustur-Asíu trónir í tólfta sæti yfir flest barnahjónabönd í heiminum, samkvæmt bresku mannréttindasamtökunum Plan International.
Með nýju lögunum, sem Rodrigo Duterte forseti Filippseyja undirritaði og kynnti í dag, geta þeir sem giftast eða fara í sambúð með einhverjum undir 18 ára aldri átt yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsisvist, að því er fréttastofa AFP greinir frá.
Þá geta þeir sem skipuleggja eða halda vígslu barnahjónabanda einnig átt yfir höfði sér sömu refsingu.
„Ríkið álítur barnahjónabönd sem ofbeldi gegn börnum því það dregur úr sjálfsvirði barnananna,“ segir í lögunum.
Ríkisstjórnin þar í landi segir lögin vera í samræmi við alþjóðlegan sáttmála um réttindi kvenna og barna.
Hins vegar hefur innleiðingu sumra hluta löggjafarinnar verið frestað í eitt ár til þess að gefa frumbyggjasamfélögum og þeim íbúum landsins sem aðhyllast múslimatrú tíma til að aðlagast en barnahjónabönd eru tiltölulega algeng meðal þeirra.
Meira en hálfur milljarður stúlkna og kvenna um allan heim hafa verið giftar í barnæsku og er hlutfall þeirra hæst í Afríku, sunnan Sahara og í Suður-Asíu, að því er greint frá í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
Nýleg gögn benda þó til þess að barnahjónaböndum fari fækkandi um allan heim.