Joe Biden Bandaríkjaforseti heldur ávarp í húsakynnum bandaríska þingsins nú klukkan 14 ásamt Kamölu Harris varaforseta, í tilefni af því að ár er liðið frá árás stuðningsmanna Donalds Trump, fyrrverandi forseta, á þinghúsið.
Ræðu Biden er streymt í beinni útsendingu hér að neðan.
Fjölmiðlar Vestanhafs hafa fengið útdrátt úr ræðu Bidens á eftir og í henni mun hann vara Bandaríkjamenn við þeirri myrku framtíð sem bíður þeirra, ef ekki verður komið hlífiskildi yfir lýðræðislegar kosningar þar í landi.
Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir að Biden muni rekja upp lygar forvera síns, Donalds Trump, og tíunda hvernig hann spann upp þá samsæriskenningu að hann sjálfur hafi verið sigurvegari kosninganna. Biden mun þannig minnast þess „hryllings“ sem átti sér stað fyrir réttu ári, dag sem Biden kallar „dimman dag“ í sögu Bandaríkjanna.