Handtaka óbólusetta sem fylgja ekki útgöngubanni

Duterte er afar umdeildur vegna harðneskjulegrar afstöðu sinnar til ýmissa …
Duterte er afar umdeildur vegna harðneskjulegrar afstöðu sinnar til ýmissa mála og hefur margsinnis verið sakaður um mannréttindabrot. AFP

Hinn umdeildi forseti Filipseyja, Rodrigo Duterte, gaf út tilskipun til lögregluyfirvalda þar í landi í dag að handtaka ætti óbólusetta einstaklinga sem brjóta gegn útgöngubanni stjórnvalda. Óbólusettir sæta nú útgöngubanni vegna hraðrar útbreiðslu Ómíkron-afbrigðisins.

Hertar aðgerðir tóku í gildi í höfuðborginni Manilla í gær, auk nokkurra annarra svæða í landinu og þar á meðal er útgöngubann sem óbólusettir sæta nú. Takmarkanirnar voru settar á þar sem smittölur þrefölduðust á síðustu tveimur dögum þar í landi.

Heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út að smittölur komi til með að hækka enn frekar og muni að öllum líkindum ná hámarki við lok mánaðarins.

Í myndbandstilkynningu segir Duterte að sökum þess að um sé að ræða neyðarástand á landsvísu sé það hans afstaða að unnt sé að handtaka þá sem ekki lúta settu útgöngubanni.

„Ég hef því tilskipað lögregluyfirvöldum að leita uppi þá sem ekki eru bólusettir og biðla til þeirra, eða skipa þeim að vera heima fyrir. Sé fyrirmælunum ekki hlýtt og viðkomandi aðilar fara út úr húsi og meðal fólks þá má handtaka viðkomandi einstaklinga,“ hefur AFP eftir forsetanum.

Dræm þátttaka í bólusetningum

Rúmlega 100 milljónir búa á Filippseyjum og þar í landi hafa bólusetningar verið valkvæðar en minna en helmingur þjóðarinnar hefur látið bólusetja sig. AFP hefur eftir Duterte að hann sé „agndofa“ yfir þeim fjölda sem ekki hefur látið bólusetja sig.

„Ef þú lætur ekki bólusetja þig þá ertu að stofna öllum öðrum í bráða hættu þar sem veiran gengur lausum hala um nærsamfélagið, landið okkar og heiminn allan.“

Rúmlega sautján þúsund manns greindust smitaðir í landinu í dag og í heildina hafa tæplega þrjár milljónir manna smitast og þar af hafa rúmlega fimmtíu þúsund manns látið lífið vegna veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert