Spítali í borginni Xi'an í Kína hefur sent frá sér opinbera afsökunarbeiðni og framkvæmdastjórinn verið sendur í leyfi eftir að myndefni af þungaðri konu sem misst hafði barn fyrir utan spítalann fór eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Vakti atvikið mikla reiði í Kína.
Strangt útgöngubann hefur verið í gildi í borginni Xi'an síðustu tvær vikur til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Er þetta gert í samræmi við stefnu stjórnvalda í Peking þar sem markmiðið er að halda Covid-smitum alveg niðri.
Í ljósi strangra sóttvarnaaðgerða var þungaðri konu, sem gengin var átta mánuði á leið, meinaður aðgangur að spítala í borginni þar sem hún gat ekki sýnt fram á niðurstöður úr neikvæðu Covid-prófi sem var innan við tveggja sólarhringa gamalt.
Á myndum og myndskeiðum sem birt voru á samfélagsmiðlum sést þungaða konan sitjandi á plaststól fyrir utan spítalann umkringd polli af blóði. Voru myndskeiðin spiluð mörg hundruð milljón sinnum áður en þau voru tekin niður.
Í yfirlýsingu frá borgaryfirvöldum í dag sagði að atvikið við Xi'an Gaoxin spítalann hefði vakið upp miklar áhyggjur og valdið slæmum félagslegum áhrifum. Eru heilbrigðisyfirvöld að rannsaka atvikið nánar.
Framkvæmdastjóri spítalans hefur nú verið sendur í leyfi og starfsmenn sem taldir eru bera ábyrgð á atvikinu verið færðir úr stöðum sínum. Var spítalanum einnig gert að senda frá sér opinbera afsökunarbeiðni.