Ónæmisfræðingur fékk byssukúlu í pósti

Viola hafði lýst yfir stuðningi sínum við bólusetningu barna gegn …
Viola hafði lýst yfir stuðningi sínum við bólusetningu barna gegn kórónuveirunni. AFP

Antonella Viola, einn af fremstu ónæmissérfræðingum Ítalíu, hefur verið veitt lögregluvernd eftir að henni var send byssukúla í pósti og henni og fjölskyldu hennar hótað, að því er kemur fram í frétt BBC.

Viola, sem er yfirmaður barnarannsóknarstofnunar í Padua á Ítalíu, hefur opinberlega lýst yfir stuðningi sínum við bólusetningu barna. Greindi hún frá því á facebook-síðu sinni að henni hafi verið hótað því að hún yrði skotin ef hún segði ekki nei við því að börn væru bólusett gegn kórónuveirunni.

„Þetta fólk er andstætt bólusetningum og veit aðeins hvernig á að hata, hafna rökfræði og lögum og skapa spennu og ofbeldi,“ sagði Viola og fullyrti að hún myndi alltaf gefa vísindunum rödd og tala við þá sem hlustuðu.

Ítalir hófu bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára í síðasta mánuði, en bólusetningarnar eru ekki skylda.

Opinberir einstaklingar í hættu

Opinberir einstaklingar hafa verið í aukinni hættu í nokkrum Evrópulöndum í þessari viku.

Nokkrum frönskum þingmönnum var hótað þegar þeir ræddu lög um bólusetningar og í gærkvöldi var ráðist á heimili hollenska stjórnmálaleiðtogans Sigrid Kaag af einstaklingi sem veifaði logandi kyndli og streymdi atvikinu  á Facebook. Þá heyrðist hinn grunaði syngja slagorð öfgahægrihóps.

Þá reitti Emmanuel Macron, forseti Frakklands, pólitíska andstæðinga sína til reiði þegar hann sagðist vilja „pirra“ óbólusett fólk með því að „takmarka eins mikið og hægt er aðgengi þeirra að félagslegum athöfnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert