„Pirrandi“ frumvarp Macrons náði í gegn

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Í dag, aðeins þremur dögum eftir að Macron Frakklandsforseti sagðist vilja „pirra“ óbólusetta landa sína, samþykkti neðri deild franska þingsins frumvarpsdrög þar sem kveðið er á um hertari sóttvarnaaðgerðir þar í landi.

Og Macron stendur við orð sín. Í frumvarpinu segir að aðeins fullbólusettum verði heimilt að ferðast með lestum innan franskra borga, sækja menningarviðburði heim eða sitja til borðs á veitingastöðum. Neikvæðar niðurstöður úr nýlegu hraðprófi eða staðfesting um fyrra smit verða ekki lengur tekin gild.

Löggjöfin er sögð munu eiga greiða leið í gegnum franska þingið meðal annars fyrir tilstilli popúlískra hægriflokka í stjórnarandstöðu sem styðja frumvarpið.

Skjótt skipast veður

Upphaflega mætti frumvarpið þó mótstöðu í franska þinginu og þurfti aðra umræðu til í gær, sem síðan frestaðist vegna uppþotsins sem varð eftir áðurnefnd orð forsetans um að hann ætlaði sér að fara í taugarnar á óbólusettum. Síðan þá hafa vindar greinilega eitthvað snúist.

Frumvarpið, sem þrengir verulega að óbólusettum Frökkum, mun því nú fara til öldungadeildar franska þingsins, þar sem meirihluti hægrisinnaðra popúlista ríkir, og mun það án efa taka einhverjum breytingum.

Svo miklum raunar, að talið er að ákvarðaður dagur gildistöku frumvarpsins, 15. janúar næstkomandi, muni ekki standast. Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að hann „vonaði innilega“ að bólusetningarpassar fullbólusettra yrðu teknir í notkun án frestunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert