Ráðherra í sóttkví eftir hundrað manna veislu

Carrie Lam kveðst hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með samstarfsfélaga …
Carrie Lam kveðst hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með samstarfsfélaga sína. AFP

Innanríkisráðherra Hong Kong hefur birt opinbera afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlinum Facebook eftir að upp komst að hann sótti veislu ásamt smituðum einstakling. Hefur honum nú verið gert að sæta sóttkví.

Caspar Tsui, innnríkisráðherra, var meðal þeirra hundrað gesta sem fjölmenntu afmælisveislu á mánudagskvöldið. Auk hans mættu einnig lögreglustjóri borgarinnar Raymond Siu og yfirmaður innflytjendamála Au Ka-wang.

Tsui var sendur í sóttkví þar sem hann hafði ekki yfirgefið samkomuna fyrir klukkan hálftíu um kvöldið, en um það leyti mætti einstaklingur sem greindist skömmu síðar með kórónuveiruna.

Þá hafði Siu þegar yfirgefið afmælið en ekki liggur fyrir hvenær Au Ka-wang fór. Er það mál enn í vinnslu.

Varð fyrir miklum vonbrigðum

Carrie Lam leiðtogi borgarinnar kveðst hafa orðið fyrir miklu vonbrigðum yfir fregnum þess efnis að háttsettir embættismenn hefðu verið viðstaddir fjölmennt afmælisboð einungis þremur dögum eftir að heilbrigðisráðuneytið ráðlagði borgarbúum að forðast stórar samkomur.

„Samstarfsfélagar mínir hafa greinilega ekki tekið við ráðum heilbrigðisráðherra, hvernig geta þeir sett gott fordæmi fyrir aðra íbúa Hong Kong?“ Spurði Lam.

Rannsókn hefur leitt í ljós að alls hafi 10 embættismenn ríkisins mætt í samkomuna, þar af átta sem hefur tekist að sanna að þeir hafi farið fyrir klukkan hálf tíu og þurfa því ekki að sæta sóttkví.

Líkt og víða annarsstaðar í Kína hafa strangar sóttvarnareglur verið ríkjandi í Hong Kong til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert