Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað við því að lýsa Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem vægu og bendir á að fjöldi fólks hafi látist vegna afbrigðisins út um allan heim. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Nýlegar rannsóknir benda til þess að ólíklegra sé að Ómíkron-afbrigðið valdi alvarlegum veikindum en fyrri afbrigði veirunnar. Að sögn yfirmanns stofnunarinnar, Dr. Tedros Adhanom Ghebreyes hefur þó aukin smittíðni afbrigðisins aukið álag á heilbrigðiskerfum.
Á mánudag greindust fleiri en ein milljón tilfella Covid-19 í Bandaríkjunum á einum sólarhring. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sagði að tilfellum á heimsvísu hafi fjölgað um 71 prósent í síðustu viku og í Ameríku um 100 prósent.
Stofnunin gaf einnig út að um 90 prósent alvarlegra veikinda sökum veirunnar væru vegna þess að einstaklingarnir væru óbólusettir gegn Covid-19.
„Þó að Ómíkron virðist vera minna alvarlegra en Delta, sérstaklega hjá þeim sem eru bólusettir, þýðir það ekki að það ætti að flokka það sem vægt,“ sagði Dr Tedros á blaðamannafundi í dag.
„Rétt eins og fyrri afbrigði er Ómíkron að valda því að fólk leggst inn á spítala og það veldur andlátum. Í raun er flóðbylgja tilfella svo mikil og snögg að það er yfirþyrmandi fyrir heilbrigðiskerfi um allan heim.“