Fleiri en 300 milljónir smita

Smitum hefur fjölgað mjög síðan seint á síðasta ári.
Smitum hefur fjölgað mjög síðan seint á síðasta ári. AFP

Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafa fleiri en 300 milljón smit greinst úti um allan heim, samkvæmt tölfræðigögnum Our World in Data.

Þegar tölurnar voru teknar saman síðdegis höfðu alls 300.042.439 smit greinst um allan heim og eru þar með talin öll tilvik sem tilkynnt hafa verið síðan kínversk heilbrigðisyfirvöld greindu fyrst frá útbreiðslu kórónuveirunnar í desember 2019, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Smitum hefur fjölgað mjög síðan seint á síðasta ári eftir að nýja Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar tók að breiðast út.

Með tilkomu Ómíkron-afbrigðsins í yfirstandandi bylgju faraldursins hefur metfjöldi smita verið að greinast í hverju landi á fætur öðru.

Undanfarna viku hafa rúmlega 13 milljón smit greinst um allan heim, eða um 64% fleiri smit en greindust fyrir viku síðan. Að meðaltali greinast tæplega tvær milljónir smita á hverjum einasta degi.

Síðastliðnar vikur hefur metfjöldi smita verið að greinast í um 34 löndum. Átján þeirra landa eru í Evrópu, sjö í Afríku og sex í Rómönsku Ameríku og í Karíbahafinu.

Þá hefur fjöldi smita í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu einnig náð nýjum hæðum á undanförnum vikum.

Evrópa hefur þó orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á nýja afbrigði veirunnar. Til að mynda er nýgengi innanlandssmita á Kýpur 3.468 og 2.840 á Írlandi. Í Grikklandi er nýgengið 2.415, í Danmörku 2.362 og 2.137 í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert