Hús hrundi í kjölfar sprengingar - sex létust

Mikill viðbúnaður er á svæðinu. Myndin er úr safni.
Mikill viðbúnaður er á svæðinu. Myndin er úr safni. AFP

Að minnsta kosti sex biðu bana þegar fjölbýlishús hrundi í kjölfar sprengingar í borginni Chongqing í Kína í dag. 

Sprengingin varð kl. 12:10 í dag að kínverskum tíma, eða klukkan 04:10 í nótt að íslenskum tíma. Talið að hana megi rekja til gasleka en málið er í rannsókn. Bygging hrundi með fyrrgreindum afleiðingum en ríflega 20 lágu fastir í rústunum að sögn yfirvalda. 

Um kl. 11 að íslenskum tíma var búið að finna 15 manns í rústunum, en sex voru látnir. Björgunaraðgerðir standa enn yfir. 

Fólkið sem slasaðist hefur verið flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Ekki hefur verið upplýst um líðan fólksins. 

Rúður splundruðust

Mikill reykur og ryk er á svæðinu, en byggingin var í Wulong-hverfi borgarinnar. 

Sjónarvottur sagði í samtali við Phoenix TV ríkisfréttastofuna að þetta hefði verið mjög ógnvekjandi. „Rúðurnar okkar hafa allar splundrast.“

Yfirvöld hafa krafist þess að björgunaraðgerðir gangi hratt fyrir sig og skipað opinberum starfsmönnum að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bjarga slösuðum og koma í veg fyrir frekari slys á vettvangi. 

Öryggismál í ólestri

Gaslekar og gassprengingar eru algengar í Kína að því er segir í umfjöllum AFP. Það stafar helst af því að öryggismál eru víða í ólestri og spilling í röðum starfsfólks sem er gert að sinna eftirliti. 

Tuttugu og fimm létust í júní sl. þegar gassprenging varð í íbúðahverfi í Kína, en byggingin féll síðan á tveggja hæða verslunarhúsnæði. Fjölmenni var í húsinu að versla þegar slysið varð. 

Átta voru í kjölfarið teknir höndum vegna málsins. Þar á meðal framkvæmdastjóri orkufyrirtækis sem átti gasleiðsluna, en yfirvöld sögðu að öryggismál hjá fyrirtækinu væru algjörlega óviðunandi. 

Þá létust 18 í sama mánuði í fyrra og margir slösuðust þegar eldur kviknaði í bardagalistaskóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert