Kassym-Jomart Tokayev, forseti Kasakstan, segir að búið sé að mestu að ná tökum á ástandinu sem hefur ríkt í landinu undanfarna daga.
Innanríkisráðuneytið segir að öryggissveitir hafi veitt öllum héruðum landsins „aukna vernd“ og að 26 „vopnaðir glæpamenn“ hafi verið drepnir og 18 særst í mótmælunum.
„Löggæslan hefur lagt hart að sér,“ bætti Tokayev við.
Hann staðfesti að friðargæslulið frá Samvinnu- og öryggisbandalagi fyrrum sovétlýðvelda (CSTO) sem Rússar hafa yfirumsjón með, sé komið til Kasakstan.
Bandarísk stjórnvöld vöruðu Rússa í gær við því að nota hersveitir sínar til að ná stjórn á helstu stofnunum Kasakstan og sögðu að heimurinn myndi fylgjast vel með gangi mála.
„Bandaríkin og heimurinn satt best að segja mun fylgjast með því hvort brotið verði á mannréttindum,“ sagði Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins.