Bretland náði þeim óeftirsótta áfanga að verða sjöunda landið í heiminum þar sem fjöldi látinna vegna kórónuveirunnar fer yfir 150 þúsund. Yfirvöld þar í landi tilkynntu þetta í dag. Rússland er eina landið í Evrópu með fleiri tilkynnt dauðsföll af völdum veirunnar.
Fjöldi greindra smita á dag fer þó minnkandi í Bretlandi en í síðustu viku voru um 200 þúsund manns að greinast daglega. Í gær greindust 146.390 manns með Covid-19 í Bretlandi.
Þessi gífurlegi fjöldi smita og einstaklinga í sóttkví hefur komið niður á heilbrigðiskerfinu og tilkynnti varnamálráðuneyti Bretlands í gær að hermenn verði sendir til þess að veita sjúkrahúsum liðsinni.
Þrátt fyrir að verulegur fjöldi greinist sýktur daglega þá eru innlagnir og dauðsföll óalgengari heldur en í upphafi faraldursins þegar bóluefnið var ekki komið til sögunnar.
Ríkisstjórnin biðlar áfram til fólks að fá örvunarskammt en rúmlega 60% tólf ára og eldri hafa fengið slíkan skammt. Þá er enn reynt eftir fremsta megni að hvetja þá sem ekki hafa þegið bólusetningu að gera það.
Eins og áður segir er Bretland því komið í hóp sjö landa þar sem dauðsföll eru fleiri en 150.000. Rússland, Bandaríkin, Brasilía, Mexíkó, Perú og Indland eru þá hinar þjóðirnar.