Að minnsta kosti sextán einstaklingar festust í bílum sínum og létust í miklum snjóbyl í bænum Murree í Pakistan í gær, í kjölfar þess að tugir þúsunda flykktust í bæinn til að berja augum óvenju mikinn snjó sem þar hafði fallið. AFP-fréttastofan segir frá.
Herinn hefur verið kallaður út til að reyna að stýra umferð, draga bíla og bjarga fólki sem enn er fast í bílum sínum.
Talið er að hátt í 100 þúsund bílar hafi keyrt inn í bæinn síðustu daga en það hefur skapað gríðarlegt umferðaröngþveiti og vegir bæði inn og út úr bænum hafa lokast, að sögn talsmanns lögreglu á svæðinu.
Murree er í um 70 kílómetra fjarlægð frá Islamabad, höfuðborg Pakistan, og þangað hefur verið vinsælt að fara í dagsferðir. Nú er fólk hins vegar hvatt til að halda sig fjarri til að koma í veg fyrir frekari hörmungar.