Brahmdeo Mandal, 85 ára gamall bréfberi á eftirlaunum frá Bihar-fylki í norðurhluta Indlands, hefur fengið tólf skammta af bóluefnum gegn Covid-19. Ástæðuna segir hann vera að honum finnist bóluefnið hjálpa almennri heilsu sinni.
The New York Times greinir frá.
Mandal hefur haldið úti bólusetningardagbók, þar sem hann hefur skráð hvar og hvenær hann hefur hlotið hvern skammt af bóluefni. Þá hlaut hann til að mynda sinn fyrsta skammt á heilsugæslumiðstöð í Bihar þann 13. febrúar á nýliðnu ári og sinn níunda skammt 24. september kl. 12:32 á sjúkrahúsi í Kalashan í Medhepura-héraði.
Fyrir níu af tólf skömmtum náði Mandal að komast upp með að framvísa skilríkjum og farsímanúmeri sínu á mismunandi bólusetningarstöðum. Eftir þau skipti fór hann að nota aðrar tegundir auðkenninga, eins og kosningakort sitt og farsímanúmer eiginkonu hans.
„Mér fannst þetta bæta heilsufar mitt,“ sagði Mandal í viðtali við The New York Times.
„Ég er hættur að finna fyrir bakverkjum, almennur slappleiki minni og matarlystin betri. Ég var alltaf að leita að nýjum bólusetningarstöðum til að fara á, þar sem enginn þekkti mig.“
Dr. Amarendra Narayan Shahi, yfirlæknir í Madhepura-héraði á Indlandi, sagði við fréttstofu New York Times að Mandal hefði komið til hans og sagt honum frá því hvernig bólusetningarnar hefðu bætt heilsufar sitt.
„Já, hann heldur því fram að hann hafi fengið 12 skammta,“ sagði dr. Shahi og bætti við að hann væri búinn að setja saman þriggja manna rannsóknarteymi til þess að komast að því hvort það sé raunin.
Yfirvöld í Madhepura-héraði hafa einnig gefið út að hafin sé rannsókn á málinu.