Látin í íbúð í Lier

Sænskur ríkisborgari á sjötugsaldri fannst látinn í íbúð í Lier …
Sænskur ríkisborgari á sjötugsaldri fannst látinn í íbúð í Lier í nótt og situr karlmaður á fertugsaldri í haldi lögreglu, grunaður um að vera valdur að látinu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Karlmaður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglunnar í Lier, skammt frá Ósló í Noregi, grunaður um að hafa orðið konu, sænskum ríkisborgara á sjötugsaldri, að bana í íbúð þar í bænum. Hafði maðurinn sjálfur samband við lögreglu klukkan 03:01 í nótt að norskum tíma og kvaðst hafa aðhafst „eitthvað alvarlegt“.

Þegar lögregla kom á vettvang fann hún konuna þar látna, en ekki er enn ljóst hvernig grunaði tengdist hinni látnu, bæði eru þó búsett í Lier. Sjálfur var maðurinn ekki á vettvangi þegar lögregla kom þangað en var handtekinn á heimili sínu skömmu síðar. „Við rannsökum málið sem manndráp, lögregla finnur fórnarlambið látið í sinni eigin íbúð,“ segir Odd Skei Kostveit yfirlögregluþjónn við norska ríkisútvarpið NRK í dag.

Miður sín yfir atburðinum

Kostveit vill ekkert gefa upp um hvernig andlátið bar að höndum, grunaði hafi enn sem komið er aðeins gefið stutta skýrslu af atburðum næturinnar. Þó kannist hann við að hafa verið valdur að dauða konunnar. Lögreglan í Lier nýtur aðstoðar norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos við rannsókn á vettvangi og var tæknifólk þaðan enn við störf nú síðdegis.

Andrea Wisløff hefur verið skipuð verjandi grunaða og var viðstödd fyrstu yfirheyrslu. Hún segir skjólstæðing sinn ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort hann viðurkenni sök í málinu. „Reiknað er með frekari yfirheyrslum í dag eða á morgun. Hann er auðvitað mjög miður sín yfir atburðinum sem er ástæðan fyrir því að fresta hefur þurft yfirheyrslum,“ segir Wisløff, en reiknað er með að lögregla fari fram á gæsluvarðhald yfir grunaða á mánudaginn.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert