Nítján látnir eftir eldsvoða í New York

Slökkviliðsmenn á vettvangi eftir eldsvoðann.
Slökkviliðsmenn á vettvangi eftir eldsvoðann. AFP

Hið minnsta nítján eru látnir og tugir slasaðir eftir eldsvoða í íbúðabyggingu í Bronx-hverfi New York-borgar. Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum eru börn á meðal fórnarlamba eldsvoðans sem borgarstjóri lýsir sem einum þeim versta í sögu borgarinnar.

„Við vitum af nítján staðfestum dauðsföllum og auk þeirra eru nokkrir til viðbótar í lífshættu,“ sagði Eric Adams, borgarstjóri New York, í samtali við CNN.

Tugir eru slasaðir eftir eldsvoðann.
Tugir eru slasaðir eftir eldsvoðann. AFP

Tvöhundruð slökkviliðsmenn á vettvang

„Þetta verður einn versti eldsvoði í sögu borgarinnar,“ bætti hann við en hlynnt er að fórnarlömbunum á fimm spítölum víðs vegar um borgina.

Ríflega tvöhundruð slökkviliðsmenn mættu á vettvang eldsins sem kviknaði í morgun að staðartíma á milli annarrar og þriðju hæðar hússins sem telur nítján hæðir. 

Fljótlega varð húsið í heild sinni þakið logum en sjónarvottur segir reykinn hafa verið með eindæmum þykkan.

Upptök eldsins eru enn óþekkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert