Taka 14 milljón sýni vegna 20 smita

Sýni verður tekið úr öllum íbúum borgarinnar.
Sýni verður tekið úr öllum íbúum borgarinnar. AFP

Yfirvöld í kínversku borginni Tiajin hafa ákveðið að skima alla 14 milljón íbúa borgarinnar fyrir kórónaveirunni eftir að hópsmit kom upp í frístundamiðstöð í borginni. 

Um er að ræða 20 einstaklinga með staðfest smit, en flestir hinna smituðu eru börn á aldrinum 8 til 13 ára. Þá hefur einn starfsmaður greinst með jákvætt smit og fjórir foreldrar. The Guardian greinir frá.

Sýnatökur íbúa hófust í dag og gert er ráð fyrir að þær taki tvo daga.

Öllum ráðlagt að halda sig heima

Fyrstu tvö smitin greindust hjá 10 ára stúlku og 29 ára starfsmanni frístundamiðstöðvarinnar. Bæði eru þau með staðfest smit af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Eftir að tæplega 800 einstaklingar tengdir frístundamiðstöðinni voru skimaðir í gærkvöldi greindust 18 smit til viðbótar.

Öllum íbúum borgarinnar hefur í kjölfarið verið ráðlagt að halda sig heima eða í grennd við heimili sitt til að geta tekið á móti sýnatökuliði yfirvalda. Íbúar fá ekki grænan kóða í símann sinn fyrr en þeir fá neikvæða niðurstöðu, en slíkum kóða þarf að framvísa til að  nota almenningssamgöngur og fara á opinbera staði.

165 smit greindust í Kína í gær

Kínversk yfirvöld hafa fylgt „zero-tolerance“ stefnu sinni varðandi Covid-19 vegna Vetrarólympíuleikana sem hefjast í Peking þann 4. febrúar næstkomandi. En borgin er í um 150 kílómetra fjarlægð frá Tianjin, þar sem smitin komu upp.

Alls greindust 165 kórónuveirusmit í Kína í gær og 159 daginn þar áður, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum þar í landi.

Milljónir manna í borgunum Xi‘an og Yuzhou sæta nú útgöngubanni vegna hópsmita sem þar hafa komið upp. Í borginni Zhengzhou standa einnig yfir sýnatökur íbúa og gert er ráð fyrir að skólum verði lokað þar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert