„Þetta er hrikalegt ástand“

Frá mótmælunum í Almaty á fimmtudag.
Frá mótmælunum í Almaty á fimmtudag. AFP

Yerzhana Akhmetzhanova er upphaflega frá Almaty, stærstu borg Kasakstan, og ólst þar upp en er nú búsett á Íslandi. Hún segir ástandið í heimalandinu ákaflega slæmt en sjálf hefur hún ekki heimsótt Kasakstan í fjölda ára.

Óeirðir hafa geisað í Kasakstan eftir miklar verðhækkanir á orku og olíu, þar sem landið er stór gasframleiðandi og býr yfir miklum olíuforða. Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman á götum Almaty til að mótmæla hækkununum fyrr í vikunni og gaf Kassym-Jom­art Tokayev, for­seti Kasakst­an, ör­ygg­is­sveit­um leyfi til að „skjóta án viðvar­ana“.

Eyðileggingin í Almaty er mikil.
Eyðileggingin í Almaty er mikil. AFP

Munum aldrei fá á hreint hversu margir létust

„Margra er enn saknað og ég held að við munum aldrei vita almennilega hversu margir hafa látið lífið undanfarna daga,“ segir Yerzhana og bætir við að ekki sé enn búið að birta nöfn þeirra sem hafa látist eða er saknað.

Samkvæmt frétt BBC hafa að minnsta kosti 164 fjórir látist í mótmælunum og næstum 6.000 verið handteknir, þar á meðal einhverjir erlendir ríkisborgarar.

Lögreglan í Kasakstan greindi frá því á fimmtudag að tólf úr öryggissveitum landsins væru látnir og að 353 hefðu særst í mótmælunum. Innanríkisráðuneyti landsins greindi síðan frá því á föstudag að 26 „vopnaðir glæpamenn“ hefðu verið drepnir og að 18 hefðu særst í mótmælunum.

Kveikt var í bílum í óeirðunum.
Kveikt var í bílum í óeirðunum. AFP

Yerzhana á fjölskyldumeðlimi sem búa í Kasakstan. Henni hefur tekist að fá fréttir frá þeim undanfarna daga og eru þau öll heil á húfi. Henni hefur þó ekki tekist að hafa samband við æskuvini sína sem búa í landinu eftir að bæði netið var tekið af og slökkt var á farsímasambandi.

Þá hefur Yerzhönu tekist að fylgjast undanfarna daga með fólki sem býr í Kasakstan í gegnum færslur þeirra á Facebook en þar hafa þau sagt frá ástandinu þar í landi.

Ástandið hrikalegt

„Þetta er hrikalegt ástand og auðvitað eru allir mjög áhyggjufullir og í uppnámi,“ segir Yerzhana.

Yerzhana segist ekki viss um að það verði fleiri mótmæli á meðal almennings þar sem herlið og öryggissveit landsins er nú mætt á staðinn. Kassym-Jom­art Tokayev, for­seti Kasakst­an, sagði á föstudag að að mestu væri búið að ná tök­um á ástand­inu.

Aðspurð segir Yerzhana það erfitt að fylgjast með ástandinu í Kasakstan og segir: „Ég hef miklar áhyggjur af heilindum lands míns af því að það lítur út fyrir að hernám hafi átt sér stað.“

Að lokum vill Yerzhana benda á að landið hennar þarf á aðstoð að halda.

Mótmæli í Kiev fyrr í dag.
Mótmæli í Kiev fyrr í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka