Bandaríkin og Rússar hefja erfiðar viðræður

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, og Wendy Sherman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, áttu „erfiðar“ viðræður vegna ótta við innrás Rússa í Úkraínu.

„Samtalið var erfitt, það gat ekki verið auðvelt,“ hefur fréttastofa AFP eftir Ryabkov eftir að aðstoðarráðherrarnir tveir ræddu saman í kvöld. Viðræðurnar stóðu yfir í rúmar tvær klukkustundir og er búist við að viðræður milli Bandaríkjanna og Rússa muni standa yfir frá morgni til kvölds á morgun.

„Ég held að á morgun munum við ekki eyða neinum tíma,“ sagði Ryabkov og bætti við að hann „missi aldrei bjartsýnina“.

Wendy Sherman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna
Wendy Sherman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna AFP

Leið samræðna og diplómatíu

Rússneskir embættismenn munu einnig hitta fulltrúa NATO og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í vikunni, þar sem Bandaríkin reyna að fullvissa evrópska bandamenn sína um að þeim verði ekki ýtt til hliðar.

„Það er leið samræðna og diplómatíu til að reyna að leysa eitthvað af þessum ágreiningi,“ sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, við bandarísku fréttastöðina CNN í kvöld.

Blinken hefur hvatt Rússa til að víkja frá og velja diplómatísku leiðina. Kremlverjar, sem standa frammi fyrir miklum þrýstingi um að draga herlið sitt til baka frá landamærum Úkraínu, krefjast víðtækara öryggisfyrirkomulags við Vesturlönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert