Í landi þar sem deilur um uppruna og hörundslit eiga sér áratugalanga sögu, var kannski ekki hæglega gert að flagga fána Evrópusambandsins yfir gröf hins óþekkta hermanns við þekkt kennileiti án þess að vekja umtal.
Það var þó nýlega gert með samþykki Evrópusinnaðs Frakklandsforseta, Emmanuel Macron, og það var eins og við manninn mælt: Viðbrögðin voru harkaleg.
„Þetta var árás á einkenni föðurlands okkar,“ æpti Marine le Pen, öfgahægrikona og fyrrverandi forsetaframbjóðandi. Í sama streng tóku bæði hægrivængmaðurinn Eric Zemmour og vinstripopúlistinn Jean-Luc Melenchon, sem báðir eru þekktir stjórnmálaskýrendur í Frakklandi.
Valerie Pecresse, andstæðingur Macron og líklegur mótframbjóðandi í yfirvofandi kosningum, gekk jafnvel lengra og spurði hvort Macron ætti e.t.v. „erfitt“ með franska sögu.
Fáninn var að endingu tekinn niður en tónninn hafði verið sleginn fyrir kosningarnar í apríl. Þjóðfélagsumræðan, samstaða og sundrung eru í Frakklandi, eins og víða, eitt helsta bitbeinið.
Sagnfræði er orðið að „þráhyggju hægrimanna í Frakklandi, sem helst í hendur við kvíða um þessi mál sem íþyngir frönsku samfélagi,“ sagði Jean Garrigues, franskur sagn- og stjórnmálafræðingur, við AFP.
Tveir þriðjuhlutar Frakka trúa því að „frönsk einkenni séu hverfandi“ í frönsku samfélagi eins og könnun þar í landi sýndi fram á í byrjun árs.
Athygli vekur þó að svarendur töldu ekki við Evrópusambandið að sakast heldur frekar erfiðleika í efnahagsmálum, síaukna tæknivæðingu og atvinnuleysi.
En, Macron hefur á forsetastóli verið óhræddur við að tala um sundrungu, kynþáttahyggju og ójöfnuð. Þegar hann svo tekur til máls notar hann gjarnan stóru orðin.
Í apríl síðastliðnum sagði hann meðal annars að afbyggja þyrfti sögu Frakklands og rita upp á nýtt, til þess að franska þjóðin geti litið almennilega í spegil og horfst í augu við nýlendutímabilið og afleiðingar þess. Stjórnmálamenn lengst úti á hægri vængnum í Frakklandi voru ekki ánægðir.
„Franskir stjórnmálamenn skilja að stundum verði að uppfæra sögu landsins, sérstaklega þegar hlutar hennar virðast ekki vilja afmást, eins og stríð í Alsír,“ sagði stjórnmálafræðingurinn Pascal Perrineau, við AFP.
„Það var borgarastyrjöld sem skildi eftir sig djúp sár í samlífi Frakka og Alsírbúa, þótt langt sé um liðið. Þótt Macron sé mjög áfram um að vísa mikið í söguna ætti hann að gæta sín, sagan er eldfim,“ bætti hann við.
Og eldar kviknuðu í október síðastliðnum þegar Macron sagði að alsírskir leiðtogar höfðu skrifað söguna af samskiptum ríkjanna tveggja alveg upp á nýtt, nokkuð sem vakti gríðarlega óánægju hinum megin við Miðjarðarhafið.
Segðir Macrons um málið vörpuðu löngum skugga á það sem hann hafði áður sagt til þess að reyna að bæta upp fyrir glæpi Frakka á nýlendutímanum.
Blóði drifin saga Frakklands verður án efa mikið í deiglunni á vordögum þessa árs þegar Frakkar ganga til kosninga. Ekki nóg með að Macron hafi slegið tóninn með ESB-fánanum í fullri stöng yfir helgustu véum Frakka, þá er hægripopúlistinn Eric Zemmour einnig búinn að gefa innsýn inn í hvernig hann mun reka sína kosningabaráttu.
Zemmour tilkynnti um framboð sitt nýverið með myndbandi þar sem hann sést standa á skrifborði og lesa yfirlýsingu í hljóðnema. Það er augljós „stæling“ á frægri ræðu Charles de Gaulle frá árinu 1940, þegar hann biðlaði til Frakka að sýna innrásarher nasista enga linkind. Til þess að reka smiðshöggið á söguklámið notaði Zemmour stillimyndir af frönskum Concorde-þotum og tóndæmi frá Barböru heitinni, franskri stórsöngkonu.
Þetta allt var klippt saman við fréttamyndir af mótmælendum í slagsmálum við lögreglu eða myndum af múslimum að ganga til bæna í frönskum moskum. Á meðan hélt Zemmour svo eldmessu um hve lágt franskt samfélag hefði lagst á undanförnum árum. Hann sagði í raun „Make France Great Again“ án þess að segja það.
Og þessu verður hinn settlegi Macron að mæta í vor. Stál í stál.