Telja „Deltakron“ ekki vera nýtt afbrigði

Fjölmiðlar á Kýpur greindu frá uppgötvuninni á laugardag.
Fjölmiðlar á Kýpur greindu frá uppgötvuninni á laugardag. AFP

Sérfræðingar telja að blendingur tveggja afbrigða kórónuveirunnar, svokallað „Deltakron“, sem uppgötvaðist á rannsóknarstofu í Kýpur sé að öllum líkindum afleiðing svokallaðrar rannsóknarstofumengunar og því ekki áhyggjuefni.

Fjölmiðlar á Kýpur greindu frá uppgötvuninni á laugardag og lýstu henni sem „erfðafræðilegum bakgrunni Delta-afbrigðisins ásamt nokkrum stökkbreytingum í Ómíkron“.

Þó að það sé mögulegt fyrir afbrigði kórónuveirunnar að sameinast erfðafræðilega, er það sjaldgæft og vísindamenn sem greindu frá uppgötvun blöndunnar telja að ólíklegt sé að um nýtt afbrigði sé að ræða.

Leiðrétta rangar upplýsingar á Twitter

Margir vísindamenn hafa leitað á Twitter til þess að leiðrétta rangar upplýsingar varðandi afbrigðablöndur.

Í síðustu viku komu fram óstaðfestar fregnir af „flúróna“ veiru í umferð, blanda af flensu og kórónuveiru sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vísaði á bug í dag.

„Við skulum ekki nota orð eins og Deltakron, flúrona eða flúrón. Vinsamlegast,“  skrifaði Maria van Kerkhove, faraldsfræðingur smitsjúkdóma hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í tísti í dag.

„Þessi orð gefa til kynna samsetningu veira/afbrigða og það er ekki að gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert