650 milljarða til að afstýra stórslysi í mannúðarmálum

Afganskur drengur í Kandahar-borg.
Afganskur drengur í Kandahar-borg. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir fimm milljörðum bandaríkjadala, sem samsvarar um 648 milljörðum króna, í mannúðaraðstoð fyrir Afganistan árið 2022 til þess að afstýra stórslysi í mannúðarmálum. 

Um er að ræða stærstu ósk Sameinuðu þjóðanna um stuðning við stakt land; 4,4 milljarða bandaríkjadala í stuðning við almenning í Afganistan og 623 milljónir bandaríkjadala í viðbót til aðstoðar Afgönum á flótta.

Martin Griffiths biðlar til aðilarþjóða.
Martin Griffiths biðlar til aðilarþjóða. AFP

Þá segir í málflutningi Sameinuðu þjóðanna að styðja þurfi við 22 milljónir manna í Afganistan og um 5,7 milljónir á flótta.

„Alvarleg mannúðarkrísa vofir yfir. Skilaboð mín eru þessi: Ekki loka dyrunum fyrir íbúum Afganistans,“ sagði Martin Griffiths, framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum.

„Hjálpið okkur að vaxa út úr hungursneyð, sjúkdómum, vannæringu og að lokum dauða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert