Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir fimm milljörðum bandaríkjadala, sem samsvarar um 648 milljörðum króna, í mannúðaraðstoð fyrir Afganistan árið 2022 til þess að afstýra stórslysi í mannúðarmálum.
Um er að ræða stærstu ósk Sameinuðu þjóðanna um stuðning við stakt land; 4,4 milljarða bandaríkjadala í stuðning við almenning í Afganistan og 623 milljónir bandaríkjadala í viðbót til aðstoðar Afgönum á flótta.
Þá segir í málflutningi Sameinuðu þjóðanna að styðja þurfi við 22 milljónir manna í Afganistan og um 5,7 milljónir á flótta.
„Alvarleg mannúðarkrísa vofir yfir. Skilaboð mín eru þessi: Ekki loka dyrunum fyrir íbúum Afganistans,“ sagði Martin Griffiths, framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum.
„Hjálpið okkur að vaxa út úr hungursneyð, sjúkdómum, vannæringu og að lokum dauða.“