Við rannsókn sem gerð var upp úr sjúkrahúsgögnum frá Kanada kom í ljós að konur eru betri skurðlæknar en karlar og líklegra er að konur mæti vandkvæðum eftir skurðaðgerð en karlar ef karlkyns skurðlæknir heldur um hnífinn.
Þá kemur einnig fram í niðurstöðum rannsóknarinnar að konur séu 32% líklegra til þess að láta lífið í aðgerð ef karlmaður sker upp.
Frá þessu er greint í frétt The Lily, undirmiðils The Washington Post þar sem kastljósinu er beint að málefnum kvenna og kynjafræði.
Rannsóknin birtist í tímaritinu The Journal of the American Medicine Association og náðu sjúkrahúsgögnin til 1,3 milljóna sjúklinga í Kanada, sem gengust undir 21 mismunandi skurðaðgerð af margvíslegum toga hjá 2.937 læknum.
Samkvæmt niðurstöðunum eru sjúklingar líklegri til þess að lifa skurðaðgerðir af ef kvenkyns skurðlæknir sker upp, minni líkur eru á að sjúklingarnir fái einhvers konar kvilla eftir aðgerðina og minni líkur eru á að þeir þurfi að leggjast inn aftur eftir að hafa verið útskrifaðir eftir aðgerðina.
„Við þurfum nú að skoða hvað það er við kvenkyns lækna sem veldur þessu,“ segir Angela Jerath, veirufræðingur og prófessor við háskólann í Toronto og einn meðhöfunda rannsóknarinnar, við blaðamann The Lily.
Ekki nóg með að lífslíkur kvenkyns sjúklinga minnki meira en hjá körlum þegar karlar skera upp, þá sýndu gögnin að þær þurftu að dvelja lengur á sjúkrahúsi eftir aðgerðina, sem nemur 16%, og líkurnar á því að þær legðust inn að nýju voru 11% hærri en hjá körlum.
Christopher Wallis, aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir þó að engin ástæða sé til þess að skelfing grípi um sig vegna niðurstaðanna. Hann segir að þótt munurinn á kynjunum sé mikill, sé ennþá lítið um að fólk látist eftir skurðaðgerðir í Kanada almennt séð.
Wallis segir að líkleg skýring á þessum niðurstöðum sé að konur eigi hægara um vik með að verða skurðlæknar í Kanada.
„Ef konur þurfa að sigrast á stærri hindrunum til þess að komast í starfið en karlar, þá gefur auga leið að þær konur sem ná langt séu einstaklega færar,“ sagði hann.