Situr fyrir svörum vegna garðveislu

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun sitja fyrir svörum á þinginu í dag vegna garðveislu sem var haldin í Downingstræti þegar strangar samkomutakmarkanir voru í gildi í  Bretlandi.

Vitni segja að Johnson og eiginkona hans hafi verið á meðal 30 manns sem sóttu veisluna í maí 2020. Sjálfur hefur hann ekkert tjáð sig um málið.

Þingmenn Íhalds- og Verkamannaflokksins segja að hann verði að útskýra mál sitt, að því er BBC greindi frá. 

Angela Rayner, varaformaður Verkamannaflokksins, sagði það vera óverjandi ef Johnson hefði verið viðstaddur garðveisluna og logið til um það.

Angela Rayner á breska þinginu í gær.
Angela Rayner á breska þinginu í gær. AFP

Í gær birti ITV tölvupóst frá einkaritara Johnsons, Martin Reynolds, þar sem um 100 starfsmönnum forsætisráðuneytisins var boðið í veislu í garði Downingstrætis á sama tíma og stórar samkomur utandyra voru bannaðar. Starfsmennirnir voru hvattir til að koma með eigið áfengi í veisluna.

Johnson segi af sér

Sir Ed Davey, leiðtogi frjálslyndra demókrata, sagði í morgunþættinum BBC Breakfast að ef forsætisráðherrann hefur „einhverja sómatilfinningu“ eigi hann að segja af sér í dag.

Hann bætti við að Johnson væri „ófær um að leiða landið í gegnum þessa heilbrigðiskrísu“ og sakaði hann um að vera „ógn við heilsufar þjóðarinnar“ vegna þess að almenningur muni ekki hlusta á það sem hann hefur að segja.

Sir Ed Davey á þinginu.
Sir Ed Davey á þinginu. AFP

Angela Rayner sagði einnig við BBC Breakfast: „Forsætisráðherrann getur ekki brotið lög og logið að breskum almenningi án þess að svara til saka fyrir það.“

Ed Davey bætti við að ef Johnson neitar að segja af sér sé það skylda þingmanna Íhaldsflokksins að „gera það rétta í stöðunni“ og tryggja að hann muni gera það „í þágu þjóðarinnar“, sagði hann.

Johnson hefur sagt málið vera í höndum Sue Gray, sem fer með rannsókn á veislum sem fjölmiðlar hafa greint frá að hafi átt sér stað í Dowingstræti og Whitehall árið 2020.

Talsmaður forsætisráðherrans hefur einnig neitað að staðfesta hvort Johnson hafi verið viðstaddur veisluna í Downingstræti í maí 2020.

Íhaldsmaðurinn Oliver Dowden fyrir utan Dowingstræti 10.
Íhaldsmaðurinn Oliver Dowden fyrir utan Dowingstræti 10. AFP

Þingmaðurinn Nigel Mills sagði við BBC Newsnight að ekki væri þörf á rannsókn til að komast að því hvort forsætisráðherran hafi verið viðstaddur veisluna.

„Hann veit hvort hann var þarna eða ekki. Stígðu bara fram og segðu frá því hvað gerðist,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka