Kallað eftir afsögn Johnsons

Boris Johnson í breska þinginu í gær, þar sem þátttaka …
Boris Johnson í breska þinginu í gær, þar sem þátttaka hans í 100 manna veisluhöldum í miðju útgöngubanni voru rædd. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, situr nú undir ákalli ýmissa háttsettra flokksystkina sinna um afsögn. BBC greinir frá. 

Johnson viðurkenndi í gær, í tilsvörum sínum gagnvart þinginu, að hann hefði verið viðstaddur um hundrað manna veislu í Down­ingstræti 10 þegar útgöngubann var í gildi fyrir almenning í landinu.  

Johnson baðst í leiðinni afsökunar á að hafa tekið þátt í veisluhöldunum, sem fóru fram í garði Down­ingstrætis, og sagðist skilja reiði almennings yfir því.

Á meðal háttsettra þingmanna í Íhaldsflokknum sem kallað hafa eftir afsögn Johnsons eru Douglas Ross, leiðtogi íhaldsmanna í Skotlandi, Wiliam Wragg, Caroline Nokes og Roger Gale.

Ross, sem er þingmaður í breska og skoska þinginu, sagðist hafa átt „erfitt samtal“ við Johnson eftir að hann baðst afsökunnar í þinginu í gær.

Tjáði hann forsætisráðherranum að hann myndi skrifa nefndinni, kenndri við 1922, bréf og leggja fram vantrauststillögu. Nefndin fer með skipulag forystu Íhaldsflokksins og er farvegur þegar kallað er eftir afsögn leiðtoga hans.

„Hann er forsætisráðherra, í ríkisstjórn sem setti þessar reglur og hann verður að bera ábyrgð á þessum gjörðum sínum,“ sagði hann.

Ef 54 slík bréf berast til nefndarinnar, frá þingmönnum flokksins, fer af stað ferli þar sem forysta flokksins er tekin fyrir og gæti endað með vantrausti og frávísun formanns.

Ráðherrar í stjórn Johnsons hafa óskað eftir að þingmenn bíði eftir skýrslu Sue Gary, sérstaks saksóknara, um sóttvarnabrotin í Downingstræti, sem ætti að koma út bráðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka