Forsætisráðuneyti Bretlands hefur beðið Elísabetu Bretlandsdrottningu afsökunar á tveimur starfsmannateitum sem haldin voru daginn fyrir útför Fillipussar drottningamanns á síðasta ári.
Eins og breska blaðið Telegraph greindi frá fyrst miðla voru haldin tvö teiti í Downing-stræti 10 16. apríl síðastliðinn. Útför Fillipusar prins var haldin daginn eftir. Elísabet Bretlandsdrottning sat ein í útför eiginmanns síns vegna samkomutakmarkana. Gleðskapurinn í forsætisráðuneytinu entist fram á rauðamorgun, eins og segir í frétt BBC um málið.
Deildar meiningar eru um hvort Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sé stætt í embætti vegna ásakana undanfarinna vikna um partíhald á meðan Bretar sættu ströngum samkomutakmörkunum. Stjórnarandstaðan er æf vegna málsins og fimm samflokksmenn Johnson í íhaldsflokknum hafa skrifað forystu flokksins bréf og reynt að knýja á um að formannskosning fari fram. Alls þurfa 54 þingmenn flokksins að skrifa slíkt bréf svo að kosning fari fram.
Johnson var sjálfur í hvorugu teitinu 16. apríl og talsmaður hans hefur sagt að það hafi verið einkar óheppilegt að gleðskapurinn færi fram daginn áður en Fillipus var jarðsunginn.
Heimildamenn Telegraph hafa sagt að einhverjir þeirra 30 partígesta sem tóku þátt í gleðskapnum 16. apríl, hafi verið sendir síðla kvölds út í stórmarkað með tóma ferðatösku. Þeir sneru til baka með töskuna fulla af áfengi.
Á meðan partístandinu stóð þurftu Bretar að sæta ströngum takmörkunum í nafni sóttvarna, eins og áður sagði. Ekki mátti bjóða gestum á heimili sitt nema þeir sem þurftu stuðning ættingja við daglegar athafnir en sex máttu koma saman utandyra.