Hafna bólusetningarkröfum Bidens

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í þinghúsinu í gærkvöldi.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í þinghúsinu í gærkvöldi. AFP

Hæstiréttur í Bandaríkjunum hefur hafnað lögmæti reglna Joes Bidens Bandaríkjaforseta þess efnis að starfsfólk á fjölmennum vinnustöðum skuli gangast undir bólusetningu við Covid-19 eða ganga með grímu og vera skimað vikulega fyrir veirunni.

BBC greinir frá. 

Var það niðurstaða dómara þessa hæsta réttarstigs Bandaríkjanna að skipunin gengi lengra en völd forseta gefa tilefni til.  

Þó samþykktu dómararnir álit um að takmörkuð bólusetningarskylda fyrir starfsfólk opinberra heilbrigðisstofnana gæti staðist lög. 

Biden vonsvikinn

Stjórn Bidens lagði til reglunar sem lið í baráttunni við hraðri útbreiðslu veirunnar. Joe Biden, sem mælist minna og minna vinsæll á meðal almennings í Bandaríkjunum, tjáði vonbrigði sín með niðurstöðurnar og sagði Hæstarétt hafa „stöðvað skynsamar reglur sem gætu bjargað lífi vinnandi fólks“. 

Þá bætti hann við: „Ég kalla eftir að fleiri leiðtogar í atvinnulífinu sýni ábyrgð, líkt og þriðjungur af hundrað stærstu fyrirtækjum landsins hefur þegar gert, og geri bólusetningu að skyldu til að vernda starfsfólk sitt, skjólstæðinga og samfélagið allt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert