Stjórnendur St. Olavs-sjúkrahússins í Þrándheimi í Noregi hafa beðið aðstandendur Cathrine Sand afsökunar, 39 ára gamallar konu sem tæplega fimmtugur maður stakk til bana í félagslegri íbúð í Lademoen-hverfinu þar í borginni í október 2019. Áttu Sand heitin og maðurinn í sambandi og hélt hún gjarnan til í íbúðinni sem hann hafði til umráða.
Er afsökunarbeiðnin, sem enn fremur nær til mannsins og aðstandenda hans, lögð fram í kjölfar útgáfu skýrslu heilbrigðiseftirlits norska ríkisins, Statens helsetilsyn, sem slær því föstu að svo gróflega hafi verið vikið frá réttum faglegum vinnubrögðum í kjölfar þess að manninum var hleypt út í samfélagið á ný, eftir að Héraðsdómur Stavanger hafði dæmt hann til nauðungarvistunar á geðdeild árið 2016, að óverjandi þætti.
Dómurinn í Stavanger byggðist á ákæru á hendur manninum fyrir að kveikja í tveimur íbúðarhúsum þar í borginni, á gamlárskvöld 2015 og nýársdag 2016, og stofna lífi íbúanna í bráða hættu.
Árið 2017 var maðurinn fluttur á lokaða deild St. Olavs þar sem hann hlaut meðhöndlun við geðklofa. Þegar sérfræðingar þar mátu ástand hans þannig að honum væri treystandi til að búa í félagslegri íbúð, með eftirfylgni og eftirliti með vímuefnanotkun, var hann færður í íbúðina í Lademoen-hverfinu.
Eftirfylgninni var hins vegar stórlega ábótavant, að sögn skýrsluhöfunda, sjúkrahúsið útbjó hvorki þann trygga ramma, sem krafist er umhverfis sjúklinga í svokallaðri samfélagsvernd, né „framkvæmdi það mat og tók þær ákvarðanir sem taka ber um sjúklinga sem sæta nauðungarvistun í kjölfar dóms“.
„Við tökum skýrslunni og niðurstöðum heilbrigðiseftirlitsins af ýtrustu alvöru,“ segir Elin Ulleberg, deildarstjóri almennrar, meðferðar- og öryggisgeðdeildar St. Olavs-sjúkrahússins, í fréttatilkynningu þaðan. „Ábyrgð heilbrigðiskerfisins er ríkuleg við dæmda meðhöndlun sjúklinga, hvort tveggja í senn til þess að rétt meðferð sé tryggð og samfélagsverndinni fylgt eftir. Sú ábyrgð er í okkar höndum og við biðjumst innilega afsökunar á að hafa brugðist þar. Fagsamfélaginu er mjög í mun að læra af þessu sorglega atviki,“ segir deildarstjórinn enn fremur.
Saksóknari útilokar ekki rannsókn á starfsháttum heilbrigðiskerfisins í kjölfar drápsins haustið 2019. Cathrine Sand heitin var sjálf nauðungarvistuð á geðdeildinni við St. Olavs en tókst að flýja þaðan 19 dögum áður en hún var myrt og er rannsókn á þeim þætti málsins nú einnig yfirvofandi.