Tíðni kórónuveirusmita er á uppleið í Kína hefur ekki verið hærri í næstum tvö ár, eða frá mars 2020. Veldur þetta miklum ugg þar sem einungis þrjár vikur eru í að Vetrarólympíuleikarnir fara fram í Peking.
Strangar samkomutakmarkanir ríkja nú í Kína þar sem markmiðið er að útrýma kórónuveirusmitum. Aðgerðirnar virðast þó ekki hafa borið tilskildan árangur en hópsmit hafa komið upp víða um landið á síðustu vikum og dögum.
Sérfræðingar hafa varað við því að nálgun Kínverja á faraldurinn muni koma til með að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn í landinu.
Íþróttamenn og fulltrúar ýmissa ríkja hafa nú þegar lagt land undir fót og eru margir hverjir komnir til Kína þar sem við tekur strangt sóttvarnaeftirlit. Verða keppendur ekki í samneyti við aðra borgara en þeir munu vera í svokallaðri sóttvarnakúlu.
Fyrir flugtak verða íþróttamenn að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr Covid-prófi til að komast inn í landið og verða þeir sömuleiðis að gangast undir aðra sýnatöku við komuna í Peking.